Þjóðverjar vilja Ísland í ESB vegna auðlindanna

Einn helsti sérfræðingur Þjóðverja í málefnum Norðurlanda, Carsten Schymik, segir litlar líkur á að Ísland gangi í Evrópusambandið. Ástæðan sé sú að ekki sé eining á meðal íslenskra stjórnmálamanna um inngöngu í sambandið og andstöðu almennings við slíkt skref. Hann segir að Evrópusambandið vilji gjarnan að ríki sem gangi í sambandið sýni vilja til þess að aðlagast því til lengri og skemmri tíma. Efasemdir hafi því vaknað um “getu” Íslands til þess að laga sig að Evrópusambandinu.

Schymik segir það þjóna hagsmunum Þjóðverja að Ísland gangi í ESB. Þar skipti náttúruauðlindir Íslendinga mestu máli. “Fyrir utan fiskinn eru það endurnýjanlegar orkuauðlindir. Einnig ræðst það af mikilvægri legu landsins í N-Atlantshafi, sem eins konar gátt til Norðurskautsins.”

Heimild:
Litlar líkur á aðild Íslands að ESB (Rúv.is 10/06/10)