Tillaga um þjóðaratkvæði rædd eftir þinghlé

Tillaga sjö þingmanna, sem koma úr öllum flokkum utan Samfylkingar, um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðlögun Íslands að Evrópusambandinu verður rædd á alþingi þegar það kemur aftur saman í nóvember eftir þinghlé.

Upphaflega gerði tillagan ráð fyrir því að þjóðaratkvæðið yrði samhliða kosningum til stjórnlagaþings. Ekki gat orðið af því þar sem nýsamþykkt lög um þjóðaratkvæði gera ráð fyrir þriggja mánaða fresti frá samþykkt þings um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu og framkvæmd hennar.

Líkur eru á því að tillagan taki þeim breytingum að kosið verði um aðlögunarferlið í febrúar eða mars á næsta ári.