Umsókn um inngöngu í ESB ástæðulaus

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lýsir andstöðu við að Ísland sæki um inngöngu í Evrópusambandið en eins og kunnugt er liggur þingsályktunartillaga frá ríkisstjórninni þess efnis fyrir Alþingi. Jón Bjarnason er andvígur inngöngu og vill ekki sækja um hana. Hann segir menn ekki eiga að banka á hurð sem þeir vilji ekki að sé opnuð því þeir ætli sér aldrei þangað inn, því telji hann það algerlega ástæðulaust að sækja um inngöngu. Það megi kalla slíkt athæfi bjölluat.

Jón segir ennfremur að sérstaklega við núverandi efnahagsaðstæður megi ekki gleyma því að vinna við umsókn um inngöngu í Evrópusambandið kosti gríðarlegar upphæðir og spurning hvort vilji sé til þess að eyða hundruðum milljóna í slíkt umsóknarferli þegar nóg annað er við fjármunina að gera og verið er að skera niður í velferðarkerfinu.

Heimild:
Aðildarumsókn að ESB ástæðulaus (Rúv.is 23/06/09)

Tengt efni:
„Látum ekki hvarfla að okkur að ganga í ESB“