Ungir jafnaðarmenn í Svíþjóð andsnúnir Lissabon-sáttmálanum

Ungliðahreyfing sænska jafnaðarmannaflokksins hefur tekið afstöðu gegn Lissabon-sáttmálanum (Stjórnarskrá Evrópusambandsins) og þannig ákveðið að fara gegn stefnu flokksins. Í grein sem birtist 1. september sl. á sænska fréttavefnum Europaportalen segir formaður ungliðahreyfingarinnar, Jytte Guteland, að þrátt fyrir að hreyfingin hafi í grundvallaratriðum jákvæða afstöðu til Evrópusambandsins þá hafi hún ákveðið að leggjast gegn Lissabon-sáttmálanum, þá einkum þar sem hreyfingin telji Lissabon-sáttmálann ekki nægjanlega lýðræðislegan.

Ef Ísland gengur í Evrópusambandið verður Lissabon-sáttmálinn að grundvallarlöggjöf Íslands og sem slíkur æðri ekki aðeins almennri íslenskri lagasetningu heldur sömuleiðis íslensku stjórnarskránni. Sáttmálinn hefur ekki enn verið endanlega staðfestur þar sem honum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi á síðasta ári. Írar þurfa nú að greiða aftur atkvæði um hann í október í samræmi við þá vinnureglu innan Evrópusambandsins að kjósa þurfi aftur og aftur um samrunaskref innan sambandsins þar til þau eru samþykkt. Þ.e. ef á annað borð er kosið um þau.

En hvort sem Lissabon-sáttmálinn verður að lokum samþykktur eða ekki þá er ljóst að núverandi sáttmálar Evrópusambandsins gera ekki ráð fyrir fleiri ríkjum innan sambandsins en þeim 27 sem þegar eru þar. Það er því ljóst að umræðan um það hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki verður að byggjast að miklu leyti á Lissabon-sáttmálanum og þeim breytingum sem hann mun hafa í för með sér fyrir sambandið. Í skemmstu máli sagt mun sáttmálinn í raun breyta Evrópusambandinu endanlega í eitt ríki.

Heimild:
(SSU): Nej till Lissabonfördraget (Europaportalen.se 01/09/09)