Vanhæf samningnefnd? Vanhæf ríkisstjórn?

G. Tómas GunnarssonEftirfarandi pistil má finna á bloggsíðu G. Tómasar Gunnarssonar.

Það er hreint með eindæmum hvað ríkisstjórn Íslands, samninganefndin og “Sambandið” vilja draga þessar samningnaviðræður á langinn.

Það veitti líklega ekki af því að Íslendingingum verði gerð grein fyrir þeim árangri sem náðst hefur í viðræðunum nú þegar.

Hve oft og hvernig skyldi hafa verið vikið frá samþykktum “Sambandsins”?  Um hvað hefur verið “samið”?  Hefur Ísland fengið einhverjar tímabundnar undanþágur nú þegar?  En varanlegar undanþágur?

Auðvitað ættu Íslenskir fjölmiðlar að birta þessar upplýsingar, því varla verður öðru trúað en að þær séu auðveldlega aðgengilegar í þeirri opnu og gegnsæu stjórnsýslu sem núverandi stjórnvöld hafa beitt sér fyrir.

Það hlýtur að vekja gríðarlega athygli hve langan tíma formaður samninganefndarinnar virðist vilja taka í viðræðurnar.  Hann virðist telja að þær verði aðeins “komnar mjög vel á veg” árið 2015.

Það rennir stoðum undir þær kenningar margra, að viðræðurnar séu vísvitandi dregnar á langinn og verði það á meðan sterkur meirihluti Íslendinga tjái þá skoðun í könnunum að þeir séu mótfallnir aðild að Evrópusambandinu.

Á meðan á að treysta á að undir- og áróðursskrifstofa “Sambandsins” á Íslandi nái að vinna fleiri Íslendinga á sitt band.

Enginn vill nú heyra minnst á fullyrðingar helstu “Sambandspostula” Samfylkingarinnar um að viðræður tækju örskamman tíma og yrðu kláraðar á nálægt 2. árum.

Það er fróðlegt að líta til þess í þessu samhengi, að samningaviðræður við lönd í Austur-Evrópu, s.s. Eistland, tóku u.þ.b. 4. ár og 9 mánuði.  (sjá tímalínu í samskiptum Eistlands og “Sambandsins” hér).  Hér er þó rétt að taka fram að þó nokkur tími leið frá aðildarumsókn Eistlands, þangað til viðræður hófust.

Auðvitað hefði verið eðlilegast að byrja samningaviðræður á “erfiðu” köflunum, þ.e. landbúnaði og sjávarútvegi.  Ef ekki fengist ásættanlegt niðurstaða í þeim köflum, er í sjálfu sér óþarfi að standa í frekari viðræðum.

Atburðir undarinna ára ættu að hafa kennt Íslendingum að ekki er sjálfgefið að allar samningaviðræður leiði til samnings.

Slíkt virðist þó aldrei hafa hvarflað að núverandi ríkisstjórn i þessum samningum, ekki frekar en í IceSave deilunni.

Hún virðist því enda forðast að setja sér samningsmarkmið sem ekki megi víkja frá heldur fara í samningaviðræðurnar með því eina markmið að ná samningi.

Slík ríkisstjórn er vanhæf til að halda á hagsmunum Íslendinga í stórum málum sem þessu.  Það sama virðist gilda um samninganefndina.

Aðild að Evrópusambandinu verður eitt af stóru málum komandi kosninga.  Þá gefst kostur á að skipta um kúrs, jafnframt því að skipt verður um ríkisstjórn.

Best færi líklega á að slíta viðræðum nú þegar, en það er engan veginn ásættanlegt að þeim verði haldið áfram án þess að skýrs umboðs verði aflað frá kjósendum.