Var EES-samningurinn heillaskref?

Var samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið heillaskref? Hvort skrifast frjálst flæði afbrotamanna á milli Evrópulanda á reikning Schengen eða fjórfrelsisins? Er fullveldishugtakinu misbeitt í Evrópuumræðunni? Þetta og margt fleira var meðal þess sem bar á góma í líflegum umræðum á fundi Heimssýnar á Kaffi Rót síðastliðinn sunnudag.

Umræðuefni dagsins var nýútkomin bók Björns Bjarnasonar,alþingismanns og fyrrv. ráðherra, um Ísland og Evrópusamabndið. Meðal framsögumanna voru auk Björns þeir Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur sem jafnframt er talsmaður inngöngu í Evrópusambandið, og Stefán Jóhann Stefánsson, varaborgarfulltrúi Samfylkingar og stjórnarmaður í Heimssýn.

Stefán varpaði þeirri spurningu meðal annars að bókarhöfundi hvort hann teldi enn, þrátt fyrir bankahrunið, að EES-samningurinn hefði orðið Íslandi til góðs. Björn tók að nokkru undir þá túlkun Stefáns að EES-samningurinn hefði skapað þær aðstæður sem leiddu af sér þenslu bankakerfisins. Þess vegna hlyti samningurinn og gildi hans að koma til skoðunar þegar menn gerðu ástæður bankahrunsins upp en sjálfur kvaðst hann enn telja að gerð samningsins hafi verið gæfuskref fyrir íslenskt samfélag.

Aðspurður um það hvort Schengen samstarfið hefði gert erlendum glæpamönnum léttara fyrir við störf á Íslandi sagðist Björn ekki telja það rétt mat. Schengen samstarfið hefði þvert á móti gert íslenskum lögregluyfirvöldum léttara í samvinnu við lögreglu annarsstaðar á Schengen samstarfinu. Aftur á móti hefði hin frjálsa för fólks samkvæmt EES-samningnum þau áhrif að hún veitti öllum íbúum á svæðinu rétt til að dvelja á Íslandi og það hefði haft áhrif á þessa mynd.

Eiríkur Bergmann ræddi í sínu andsvari við bók Björns nokkuð um fullveldishugtakið og taldi þar að ekki lægi ljóst fyrir hvað átt væri við með hugtaki þessu. Þannig væri Ísland áfram fullvalda þó svo að það gengi í Evrópusambandið sem aftur á móti Kalifornía og Bæjaraland væru ekki þar sem þau ríki gætu ekki gert alþjóðlega samninga. Ragnar Arnalds formaður Heimssýnar benti í þessu samhengi á að ríki sambandsins gætu t.a.m. ekki gert fríverslunarsamninga við lönd utan Evrópu sem hlyti að teljast veruleg skerðing á fullveldi.

Um þessi atriði og mörg fleiri má lesa frekar í bók Björns Hvað er Íslandi fyrir bestu? sem fæst í bókaverslunum og á skrifstofu Heimssýnar. Sjá ennfremur fyrirlestur Stefáns Jóhanns Stefánssonar í heild sinni.