Varanleg kreppa í Evrópu

Björgunarsjóður Evrópusambandsins fyrir jaðarríki í neyð var stofnaður sem skyndihjálp fyrir Grikki og Íra. Ráðherraráðið ákvað á desemberfundi sínum að sjóðurinn yrði varanlegur sem þýðir að Brussel metur stöðuna þannig að evrusvæðið verði í kreppuástandi næstu árin.

Tom Stevenson frjárfestingarstjóri hjá Fidelity býst við að lítill hagvöxtur og háar skuldir munu einkenna efnahag jaðarríkja evrusvæðisins. Óhjákvæmilegar afskriftir eru ekki framkvæmdar strax þar sem kerfisáhætta sé of mikil. Jaðarríkin Grikkland, Írland, Portúgal, Spánn og jafnvel Ítalía sitja í efnahagslegu svartholi vegna þess að lögeyrir þeirra, evran, er alltof hátt skráð.

Þjóðverjar njóta evrunnar enda lækkuðu þeir framleiðslukostnað sinn jafnt og þétt allan áratuginn. Ef að líkum lætur mun það taka jaðarríkin áratug eða meira að jafna metin við Þjóðverja. Og nærri má geta hvort þeir þýsku sitji með hendur í skauti ef samkeppnishæfni þeirra sé ógnað.

Efnahagskreppan í Evrópu mun fyrr heldur en seinna leiða til pólitískrar kreppu þar sem jaðarríkin gera uppreisn gegn því að vera dæmd í efnahagslegt svarthol.

Pimco, stærsti fjárfestingasjóður í heimi, segir hreint út að skuldastaða Íra, Grikkja og Portúgala sé slík að ríkin verði að fara út úr evru-samstarfinu ef þau ætla sér að eiga minnstu möguleika á að vinna sig úr kreppunni.