Vaxandi andstaða við ESB-aðild

Í könnun Capacent-Gallup fyrir Heimssýn sögðust 63 prósent vera andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu en 37 prósent fylgjandi, séu aðeins tekin svör þeirra sem tóku afstöðu.

Könnunin byggir á 1085 svörum við spurningunni ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB)?

Í sambærilegri könnun fyrir sex mánuðum, í júní 2011, voru 57,3 prósent andvíg en 42,7 prósent fylgjandi. Andstaðan hefur vaxið um tæp sex prósentustig og jafnframt fellur fylgið við aðild um sama fjölda prósentustiga.

Heildarskipting á svörum er eftirfarandi:
Alfarið, mjög eða frekar andvíg aðild: 53,5 prósent
Hvorki hlynnt né andvíg aðild: 15 prósent
Alfarið, mjög eða frekar hlynnt aðild: 31,5 prósent

Könnunin mældi viðhorf til aðildar á tímabilinu október til desember sl.