Vaxandi efasemdir um björgun evrunnar

Sú ákvörðun leiðtoga evruríkjanna að setja á laggirnar sérstakan neyðarsjóð til þess að bjarga evrunni upp á 750 milljarða evra er vægast sagt umdeild. Fyrstu viðbrögð markaðarins voru jákvæð en efasemdir hafa síðan færst í aukana. Óvíst þykir hvort aðgerðin dugi til þess að koma evrunni í skjól og að líklegra að hún muni aðeins fresta vandamálinu. Einnig eru efasemdir um að aðgerðin komi í veg fyrir árásir spákaupmanna á evruna og sé allt eins líkleg til þess að gera hana enn ákjósanlegra skotmark.

Ekki liggur enn fyrir hvaðan peningarnir eiga að koma sem fara eiga í neyðarsjóðinn en ekkert hefur verið gefið upp um það. Athygli vekur að þriðjungur upphæðarinnar kemur frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. M.ö.o. treysti ESB sér ekki til þess að koma evrunni til bjargar eitt síns liðs frekar en Grikklandi eða öðrum ríkjum sambandsins sem lent hafa í efnahagshremmingum á undanförnum mánuðum og árum. Þá felur neyðarsjóðurinn í sér viðurkenningu á því að fleiri evruríki en Grikkland séu í hættu.

Þá hefur verið bent á að neyðarsjóðurinn sé í raun ríkissjóður fyrir ESB að öllu leyti nema að nafninu til. Búist er við dómsmálum þar sem látið verði reyna á það hvort björgunaraðgerðirnar standist sáttmála sambandsins og er eitt slíkt mál í uppsiglingu í Þýskalandi. Ljóst er að engan veginn er útséð um framtíð evrunnar þrátt fyrir aðgerðir evruríkjanna.

Heimildir:
Shock and awe may not be enough to save Europe (Telegraph.co.uk 10/05/10)
Europe prepares nuclear response to save monetary union (Telegraph.co.uk 09/05/10)