Vel heppnuð fullveldishátíð

Fjölmenni var á fullveldissamkomu Heimssýnar sem haldin var í dag, 1. desember, í nýju húsnæði samtakanna við Lækjartorg í Reykjavík. Á annað hundrað manns

mættu, en boðið var upp á tónlist, ræður og ljóðalestur.

Samkoman var með fjölbreytilegu sniði. Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, flutti ræðu við góðar undirtektir. Þá flutti Inga Backman nokkur vinsæl sönglög við harmonikkuundirleik Sigurðar Alfonssonar og Bjarki Karlsson, ljóðskáld, flutti kvæðabálk sinn, Þúsaldarhátt, úr ljóðabókinni Árleysi alda, sem hann hefur nýverið gefið út. Síðan flutti Halldóra Hjaltadóttir, formaður Ísafoldar, félags ungs fólks gegn ESB-aðild, ræðu í lokin. Að endingu var svo kraftmikill fjöldasöngur undir leiðsögn Gunnars Guttormssonar.

Jón Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og varaformaður Heimssýnar, stýrði samkomunni af röggsemi. Boðið var upp á kaffi og meðlæti.

Með viðburðinum vilja fullveldissinnar minna á mikilvægi fullveldisins og merkingu þess. Hemmsýn vekur athygli á að fullveldið var fært okkur til varðveislu fyrir komandi kynslóðir.