Vel sóttur fundur

Heimssýn hélt í dag fund um stöðu aðildarumsóknar Íslands að ESB undir fyrirsögninni “Er ESB-umsóknin dauð?”. Var fundurinn vel sóttur, en þar mættu vel á fjórða tug manns.

Umræður voru bæði fróðlegar og málefnalegar. Styrmir Gunnarsson var þeirrar skoðunar að aðildarumsókn Íslands að ESB væri “pólítískt dauð”, eins og hann orðaði það, meðal annars vegna þeirrar andstöðu við hana sem upp er komin og vegna “skorts á dýnamískri umræðu um sambandið” og að “umræðan hefur takmarkast við umræðu um gjaldmiðilinn og evruna”.

Mörður Árnason var þó ekki á sama máli, en hann taldi ESB-umsóknina hafa öðlast nýtt líf eftir skýrslu Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðlamálum. Sagði hann evruna með aðild að ESB eina kostinn í stöðunni og því væri óumflýjanlegt að halda umsóknarferlinu áfram.