Verður evrusvæðinu skipt í tvennt?

Breska dagblaðið The Daily Telegraph hefur eftir háttsettum embættismanni hjá Evrópusambandinu í dag að frönsk og þýsk stjórnvöld íhugi nú alvarlega þann möguleika að skipta evrusvæðinu í tvennt. Í annars vegar evrusvæði sem yrði myndað af Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Austurríki og Finnlandi og hins vegar svæði sem yrði skipað veikari evruríkjum eins og t.a.m. Grikklandi, Ítalíu, Spáni, Portúgal, Írlandi.

Hugmyndin gengur út á það að losa sterkari evruríkin við ábyrgðina af þeim ríkjum sem hafa átt við alvarlega efnahagserfiðleika að etja. Í raun er þannig ætlunin að láta þessi ríki sigla sinn sjó. Ástæðan er einkum það sjónarmið að evrusvæðið þoli ekki annað áfall eins og efnahagserfiðleika Grikklands. Nú er útlit fyrir að Spánn lendi næst í alvarlegum erfiðleikum og það yrði svæðinu einfaldlega ofviða.

Ef af þessum áformum verður og evrusvæðið brotnar upp með þessum hætti vaknar sú spurning eðlilega hvaða evrusvæði Evrópusambandssinnar vilji að Ísland verði hluti af? Gera má ráð fyrir að gerðar verði jafnvel enn strangari kröfur en nú fyrir aðild að fransk-þýska evrusvæðinu.

Heimildir:
Germany and France examine ‘two-tier’ euro (Telegraph.co.uk 19/06/10)
Tvískipt mynt­svæði innan ESB til umræðu (Evrópuvaktin.is 19/06/10)
Evrusvæðinu hugsanlega skipt (Mbl.is 19/06/10)