Við fasistarnir

eftir Svavar Alfreð Jónsson 

Þegar Ísland sótti um aðild að Evrópusambandinu var það gert með tilstyrk stjórnmálaflokks sem er á móti aðildinni.

Nýlega ítrekaði flokkurinn þá andstöðu sína.

Það athæfi, að sækja um aðild að samtökum sem maður vill alls ekki í vera, var réttlætt með því að skoða ætti í pakkann, sjá hvaða samning hægt væri að fá og síðan ætti þjóðin að fá að ákveða hvort hún vildi aðild eða ekki.

Síðan hefur verið að koma í ljós að umsóknin var ekki send til að skoða í pakkann. Nú síðast lýsti Þorsteinn Pálsson því yfir í viðtali á Eyjunni, að sú ákvörðun Alþingis, að sækja um aðild að ESB feli í sér að Ísland stefni að aðild.

Viðræðurnar séu ferli sem miði að aðild.

Hafi einhver efast um að meiningin með aðildarumsókn Íslands hafi verið sú að fá að skoða í pakkann, hafa nú verið tekin af öll tvímæli um það, af manni sem situr í samninganefndinni sjálfri.

Þegar Ísland sótti um aðild að ESB var það yfirlýsing um að Ísland ætlaði sér þangað inn.

Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um trúverðugleika Íslands. Það er ekki trúverðugt að sækja um aðild að alþjóðlegum samtökum en vera um leið á móti aðild að samtökunum.

Illa var staðið að ESB-umsókn Íslands. Sótt var um með hangandi hendi og ferlið hefur einkennst af spuna og blekkingum.  

 

Aðildarsinnar staðhæfðu að umsóknin myndi hafa í för með sér „upplýsta” umræðu um Evrópusambandið.

Sú umræða hefur einkennst af öfgum. Hún er í sama anda spuna og blekkinga og umsóknin.

Í herbúðum heitustu andstæðinga aðildar er rætt um landsölu og föðurlandssvik.

Aðildarsinnar hafa síst verið skárri. Þeir sem leyfa sér að efast um aðild Íslands að ESB eru sagðir þjóðrembur, einangrunarsinnar sem hafi andúð á útlendingum og óvinir alþjóðlegrar samvinnu.

Nýjasti stimpillinn á okkur er sá að við séum öfgafólk og á móti lýðræði. Við viljum ekki að þjóðin fái að segja álit sitt á samningnum. Við erum fasistar.

Einn samningamanna Íslands hefur nú áréttað hvað umsókn Íslands að ESB þýddi.

Ákvörðun Alþingis felur í sér að Ísland stefnir að aðild,

segir hann orðrétt í áminnstu viðtali.

Þess vegna átti að spyrja þjóðina áður en sótt var um. Það hefði verið lýðræðislegast.

Við sem erum andsnúin aðild Íslands að ESB hefðum glaðst ef þjóðin hefði fellt umsóknina. Málið hefði þá verið úr sögunni, í bili alla vega, og tómt mál að tala um „tvöfalda atkvæðagreiðslu” eins og einu sinni var í tísku að kalla það.

Já hefði á hinn bóginn styrkt ferlið. Með því hefði samninganefndin umboð þjóðarinnar á bak við sig og vilji hennar væri skýr:

Hún vildi í ESB og væri þess vegna að óska eftir aðild.

Þetta heitir víst að vera trúverðugur og heiðarlegur sem eitt sinn þóttu dyggðir á Íslandi.

En það er orðið nokkuð langt síðan.

(Tekið af bloggi Svavars Alfreðs, sjá hér.)