Viðurkennir að almennir borgarar evruríkja voru blekktir

Forseti Evrópusambandsins, Herman van Rompuy, viðurkenndi sl. þriðjudag að því hafi verið haldið frá almennum borgurum í ríkjum Evrópusambandsins að upptaka evrunnar hefði það m.a. í för með sér að efnahagsþróun í öðrum evruríkjum hefði beinar afleiðingar á lífskjör þeirra. Með því var van Rompuy að vísa til þess að önnur evruríki hafi þurft að hlaupa undir bagga með Grikkjum í efnahagsþrengingum þeirra og munu hugsanlega þurfa þess í tilfelli fleiri ríkja á evrusvæðinu.

Þá viðurkenndi van Rompuy einnig að alltaf hafi legið fyrir að þörf væri á einni efnahagstefnu og pólitískri stefnu samhliða einum sameiginlegum gjaldmiðli. Sagði hann ljóst að evrusvæðið væri í erfiðri stöðu að þessu leyti og bætti síðan við: “Þessi spenna hefur verið til staðar allar götur síðan evran var sett á laggirnar. Almenningur var hins vegar ekki upplýstur um það.”

Heimild:
Ordinary people were misled over impact of the euro, says Herman Van Rompuy (Telegraph.co.uk 26/05/10)