Vildu Íslendingar að sótt yrði um inngöngu í ESB?

Í Morgunblaðinu í gær 19. september birtist aðsend grein eftir Hjört J. Guðmundsson, stjórnarmann í Heimssýn, þar sem hann færir rök fyrir því að meirihluti Íslendinga hafi aldrei viljað að sótt væri um inngöngu í Evrópusambandið eins og núverandi ríkisstjórn gerði sl. sumar. Byggir hann það m.a. á niðurstöðum nýjustu skoðanakönnunar um afstöðuna til sambandsins en þar kemur m.a. fram að meirihluti landsmanna sé óánægður með umsóknina. Grein Hjartar fer hér á eftir.

“Ef marka má síðustu skoðanakannanir um afstöðu Íslendinga til inngöngu í Evrópusambandið er ljóst að stuðningur við að gengið verði í sambandið hefur farið óðum minnkandi frá því í byrjun þessa árs eftir að hafa aukist umtalsvert fyrst eftir bankahrunið í október síðastliðnum.

Mikill meirihluti Íslendinga vill nú ekki ganga í Evrópusambandið. Samkvæmt nýjustu könnuninni sem Capacent Gallup gerði fyrir Samtök iðnaðarins og birt var 15. september sl. myndu yfir 60% greiða atkvæði gegn inngöngu ef gengið yrði til þjóðaratkvæðis um málið nú.

Það sem hins vegar vekur kannski hvað mesta athygli við þessa könnun Capacent Gallup er sú niðurstaða að meirihluti skuli vera óánægður með að sótt hafi verið um inngöngu í Evrópusambandið í sumar. „Var ekki meirihluti fyrir því?“ hafa vafalaust einhverjir spurt sig.

Staðreyndin er sú að svo var alls ekki. Skoðanakannanir sem spurt hafa á liðnum árum um svokallaðar aðildarviðræður hafa vissulega yfirleitt sýnt meirihluta fyrir þeim en kannanir sem spurt hafa um afstöðuna til umsóknar um aðild hafa hins vegar allajafna sýnt meirihluta andvígan.

Á þetta hefur ítrekað verið bent af okkur sjálfstæðissinnum og að eina skýringin á þessu geti verið sú að fólk hafi viljað einhvers konar óformlegar könnunarviðræður við Evrópusambandið en ekki formlega umsókn um inngöngu í það.

Niðurstöður skoðanakönnunar Capacent Gallup nú síðast renna enn frekari stoðum undir þá skýringu. Umsókn ríkisstjórnarinnar um inngöngu í Evrópusambandið hefur einfaldlega ekki stuðning meirihluta landsmanna á bak við sig og hefur aldrei haft.”