Vogunarsjóðir veðja á hrun evrunnar

Stórir alþjóðlegir vogunarsjóðir veðja nú á að gengi evrunnar eigi eftir að hrynja og hafa tekið svokallaða skortstöðu gagnvart henni. Örvæntingarfullar aðgerðir Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissóðsins til þess að reyna að bjarga evrunni nýverið með yfirlýsingum um 750 milljarða evra neyðarsjóði fyrir evrusvæðið hafa engu breytt í þeim efnum. Ofan á annað eru uppi miklar efasemdir um að sambandið hafi burði til þess að útvega slíkar fjárhæðir ef þörf yrði á því en ekkert hefur verið upplýst um það hvaðan það á að koma.

Áhyggjur af evrusvæðinu jukust enn sl. föstudag þegar spænska ríkið neyddist til þess að taka yfir spænskan sparisjóð. Óttast menn að næst þurfi að bjarga Spáni frá gjaldþroti eftir að Grikkland var sett í gjörgæslu. Í kjölfarið gæti svo komið að Portúgal, Írlandi, Ítalíu og jafnvel Belgíu. Slík keðjuverkun gæti hæglega riðið evrusvæðinu að fullu og gert út af við það. Svo alvarleg er staðan að forystumenn innan ESB, einkum í Þýskalandi, hafa lýst því yfir opinberlega að evran sé í mikilli hættu og um leið sambandið sjálft.

Heimild:
Hedge funds bet big on the falling euro (Telegraph.co.uk 22/05/10)