Yfirmaður alþjóðavæðingardeildar Viðskipta- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna hvetur Íslendinga til að taka ekki upp evru

Það vakti athygli fundargesta á hádegisfyrirlestri í hátíðarsal Háskóla Íslands að Dr. Heiner Flassbeck yfirmaður Alþjóðavæðingardeildar Viðskipta- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna taldi algjört óráð fyrir Íslendinga að taka upp evru við þær aðstæður sem ríkja nú.  Flassbeck fjallaði um þann vanda sem getur fylgt vaxtamunarviðskiptum með gjaldmiðla og fór gaumgæfilega yfir þau vandamál sem Íslendingar, Ungverjar, Tyrkir, Búlgarar og fleiri þjóðir stóðu frammi fyrir á undangengnum árum vegna vaxtamunarviðskipta, gengishækkunar og viðskiptahalla. Þá lýsti Flassbeck þeirri leið sem hann taldi besta fyrir Íslendinga að fara út úr kreppunni, en þá leið kallaði hann kínversku leiðina.
 
Hann sagði mörg Asíulönd hafa fetað þessa leið eftir gjaldeyris- og efnahagskreppur síðustu ár. Ráðleggingarnar voru að ýmsu leyti áþekkar því sem felst í efnahagsáætlun stjórnvalda fyrir utan það að hann ráðlagði sérstakar örvunaraðgerðir með tilstuðlan peningastefnunnar.
Það sem vakti sérstaka athygli fundargesta var þó svar Flassbecks við spurningu úr sal í lokin um hvort evran væri ekki lausn fyrir Íslendinga. Hann hélt nú ekki. Sagðist hafa verið  viðbúinn þessari spurningu og varpaði upp á tjald mynd sem sýndi þann vanda sem Evrópusambandið ætti við að glíma vegna sundurleitrar verðbólguþróunar. Þar væri reyndar Þýskalandi aðaðsökudólgurinn vegna miklu lægri verðbólguþróunar, en þessi sundurleitni væri að ganga af evrusamstarfinu dauðu. Við þessar aðstæður ætti ekkert land að gerast aðili að Evrópusambandinu.