Fullveldisframsal
Með aðild að ESB færist vald yfir veigamiklum þáttum fullveldis okkar til Brussel. Dæmi:
1) Yfirráð yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu;
2) Rétturinn til að gera fiskveiðisamninga við önnur ríki;
3) Rétturinn til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki;
4) Rétturinn til að afnema tolla eða leggja á tolla;
5) Æðsta dómsvald til ESB-dómstólsins o.s.frv.
ESB-aðild er þess eðlis að hún útheimtir breytingu á stjórnarskrá Íslands í grundvallaratriðum. Það væru mikil afglöp gagnvart komandi kynslóðum ef við afsöluðum fullveldisréttindum þjóðarinnar í hendur öðru ríki eða ríkjasambandi. Ákvörðun um ESB-aðild má því ekki taka út frá skammtímasjónarmiðum, svo sem aðsteðjandi kreppu eða vandamálum tengdum gengi krónunnar, heldur verður að horfa áratugi fram í tímann og minnast þess að einmitt í krafti sjálfstæðins bætti þjóðin lífskjör sín frá því að vera ein fátækasta þjóð Evrópu og til að verða ein sú ríkasta.
Nýtt stórríki
Seinustu sex áratugi hefur ESB þróast hratt og fengið öll helstu einkenni nýs stórríkis sem stjórnað er af forseta og ríkisstjórn, þingi og æðsta dómstól og hefur sameiginlega utanríkisstefnu og fiskveiðilögsögu, landamæraeftirlit, stjórnarskrá, fána og þjóðsöng og myntbandalag.
Ekkert bendir til þess að þessi þróun sé á enda runnin. Meginmarkmiðið með framsali aðildarríkjanna á mikilvægustu þáttum fullveldis síns til miðstjórnarvaldsins í Brussel er að byggja upp nýtt risaveldi sem þjónar innri þörfum Sambandsins, þeim hagsmunum og stefnu sem þar ríkja.
Réttarstaða aðildarríkjanna verður hliðstæð fylkjunum í Bandaríkjum Ameríku sem hafa sjálfstjórn í vissum málaflokkum en búa við skert sjálfstæði og sterkt alríkisvald.
Völd litlu ríkjanna fara minnkandi
Völd lítilla ríkja í ESB hafa minnkað en völd hinna stóru aukist. Stefnt er að meirihlutaákvörðunum í stórauknum mæli með hliðsjón af íbúafjölda aðildarríkjanna. Ísland fengi aðeins 3 atkvæði af 350 í ráðherraráðum, þar sem mikilvægustu ákvarðanir eru teknar, og aðeins 5 atkvæði af 750 á ESB-þinginu. Sjálfstæð rödd Íslands myndi að mestu þagna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Því fámennara og áhrifaminna sem aðildarríki eru, þeim mun meiri er skerðing sjálfstæðisins og hvergi yrði sú skerðing jafn tilfinnanleg og hér, m.a. vegna þess hve sjávarútvegur vegur þungt í efnahagslífi okkar og orkuauðlindirnar eru miklar og vannýttar. Hætt er við að Ísland yrði eins og hreppur á útjaðri risaríkis.
Samþjöppun valds í ESB
Í ESB færist sífellt meira vald frá aðildarríkjum til ókjörinna embættismanna í Brussel og til ráðherra sem taka veigamestu ákvarðanir. Þingið hefur fyrst og fremst staðfestingar- og eftirlitsvald. Almennir þegnar í aðildarlöndunum hafa því lítil áhrif á þróun mála, og afar dræm kosningaþátttaka til þings ESB sýnir hve framandi og fjarlægt Brusselvaldið er þeim. Lýðræðishallinn í ESB er einn og sér næg ástæða til að hafna ESB-aðild. Valddreifing er tímans kall en sívaxandi valdasamþjöppun í miðstýrðum stofnunum ESB sem að litlu leyti lúta eftirlitsvaldi kjósenda er afturför í þróun lýðræðis í Evrópu. Á Íslandi geta kjósendur kosið burt leiðtoga sem þeim líkar ekki við en í ESB hefðu þeir engin áhrif á hverjir yrðu hinir nýju yfirboðarar.
Valdamiðstöðin er fjarlæg
Fjarlægð Íslands frá valdamiðstöðvum ESB og þekkingarleysi embættismanna þar á íslenskum aðstæðum minnir okkur á hve fráleitt er að Íslandi sé stjórnað úr 2000 km fjarlægð. Hætt er við að brýnar ákvarðanir sem varða okkur Íslendinga miklu velkist of lengi í kerfinu í Brussel og það gæti orðið okkur til mikils skaða, t.d. í sjávarútvegsmálum og á öðrum sviðum auðlindanýtingar. Margar ESB-reglur henta Íslendingum alls ekki vegna smæðar íslensks samfélags og ólíkra aðstæðna í fámennu landi. Við þurfum að geta sniðið okkur stakk eftir vexti og valið það sem okkur hæfir best.
Efnahagsleg stöðnun er eitt helsta einkenni ESB
Stórfellt atvinnuleysi er eitt helsta einkenni á atvinnulífi ESB og fylgifiskur aðildar vegna þess hve vinnumarkaður í ESB er þunglamalegur og hefur lítinn sveigjanleika. Hagvöxtur í ESB hefur verið mun hægari en á Íslandi, Noregi og í Bandaríkjunum.
Óhagkvæmt myntsvæði fyrir Ísland
Óhagræðið af sameiginlegri vaxta- og peningastefnu á evrusvæðinu, þrátt fyrir mismunandi efnahagsaðstæður í aðildarlöndum, ýtir enn frekar undir atvinnuleysi í jaðarríkjunum. Svíþjóð, Danmörk, Pólland eru meðal ESB ríkja sem hafa ekki viljað taka upp evruna og fyrir því eru góðar ástæður. Ýmislegt bendir til þess að ESB sé í raun ekki hagkvæmt myntsvæði, hvað þá að svæðið sé hagvkæmt myntsvæði fyrir Ísland. Án þeirrar aðlögunar sem fæst í gegnum gengi krónunnar er víst að Íslendingar yrðu mun lengur að ganga í gegnum hagsveiflur. Auk þess mun líða langur tími, jafnvel áratugur þar til við uppfyllum Maastrichtskilyrðin og gætum tekið upp evru.
Úrslitavald yfir auðlindum
Það er grundvallarregla hjá ESB að stofnanir þess hafa „úrslitavald um varðveislu lífríkis sjávarauðlinda í samræmi við sameiginlegu fiskveiðistefnuna“. Allt tal um að Íslendingar geti fengið varanlega undanþágu frá þessari meginreglu er ábyrgðarlaus áróður. Mörg aðildarríki hafa sótt það fast en ekkert þeirra fengið annað en tímabundna aðlögun. Lögsaga Íslendinga yfir auðlindum sjávar umhverfis landið er sjö sinnum stærri en landið sjálft. ESB fengi úrslitavald um hámarksafla sem leyfður yrði, veiðitegundir, veiðisvæði og veiðitíma. Reglum um „hlutfallslegan stöðugleika“ (hliðsjón af veiðireynslu) getur meirihluti ráðherraráðsins breytt. Rétti komandi kynslóða til fiskimiðanna yrði stefnt í mikla hættu. ESB er að breytast hratt og sú þróun stöðvast ekki þó að Ísland gangi inn.
Kvótalaust sjávarþorp?
ESB-aðild útheimtir að opnað sé fyrir fjárfestingu erlendra fyrirtækja í sjávarútvegi. Veiðiheimildir gætu í framhaldinu safnast á hendur erlendra aðila og arðurinn (virðisaukinn) þannig flust úr landi. Ísland gæti því „breyst í kvótalaust sjávarþorp“, eins og nýlega var bent á.
Samningsrétturinn glatast
Um þriðjungur af verðmæti sjávarafla landsmanna fæst úr svonefndum deilistofnum sem flakka úr einni lögsögu í aðra. Hingað til höfum við haft samningsrétt við önnur ríki, svo og ESB, um veiðar úr þessum stofnum. Við ESB-aðild myndi þetta vald færast til yfirstjórnar ESB. Nýjar tegundir hafa fært sig inn í okkar lögsögu, nú seinast makríll. Ef við hefðum afhent ráðamönnum ESB samningsréttinn og hlýtt boðum þeirra og bönnum væri nær ekkert veitt hér af þessum tegundum, t.d. kolmunna sem skilað hefur sum árin skilað tugmilljarða króna virði í þjóðarbúið.
Þungt högg fyrir landbúnaðinn
Íslenskur landbúnaður veitir okkur fæðuöryggi af miklum gæðum auk þess sem hann styrkir jöfnuð okkar í viðskiptum við aðrar þjóðir og heldur uppi atvinnu og byggð í landinu. ESB-aðild yrði þungt högg fyrir landbúnaðinn sem sviptur yrði tollvernd. Samdráttur í búvöruframleiðsu myndi valda auknu atvinnuleysi víðs vegar um land í sveitum og þéttbýli sem byggir afkomu sína á framleiðslu landbúnaðarafurða.