Spurningar og svör

Fullveldi og sjálfstæði

Það er ekkert úrsagnarákvæði í núverandi sáttmála Evrópusambandsins. Ekkert ríki (nema Grænland árið 1982) hefur sagt sig úr ESB. Í Lissabon sáttmálanum mun koma inn úrsagnarákvæði en það er mjög óljóst hvað bíður ríkis sem segir sig úr sambandinu. Ríki sem segir sig úr sambandinu hefur enga milliríkjasamninga og það tekur mörg ár að koma þeim á aftur. ESB mun hafa lítinn áhuga á að gera úrsögn sem auðveldasta, það eykur bara líkur á að önnur ríki yfirgefi sambandið ef þeim mislíkar eitthvað.

Áhrif Íslands innan Evrópusambandsins, yrði af íslenskri aðild, yrðu svo gott sem engin. Sú meginregla gildir innan sambandsins að vægi einstakra aðildarríkja, og þar með allir möguleikar þeirra til þess að hafa áhrif innan þess, fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Ljóst er að þetta fyrirkomulag myndi seint henta hagsmunum Íslendinga enda flest aðildarríki Evrópusambandsins milljónaþjóðir og í sumum tilfellum tugmilljónaþjóðir á sama tíma og Íslendingar eru aðeins rúmlega 300 þúsund.

Enginn getur fullyrt um það hvernig Evrópusambandið muni þróast til framtíðar. Hins vegar er hægt að gera ráð fyrir líklegri framtíðarþróun sambandsins ef litið er til þess hvernig það hefur þróast til þessa. Ef eitthvað hefur einkennt þróun Evrópusambandsins til þessa er það sífellt meiri samruni og miðstýring á öllum sviðum. Fátt bendir til annars en að þessi þróun muni halda áfram. Í dag vantar lítið upp á að sambandið verði að einu ríki.

Ef ríki Evrópusambandsins væru í raun frjáls og fullvalda er ljóst að stofnanir sambandsins, sem flestar eru sjálfstæðar gagnvart ríkjunum, væru því sem næst valdalausar. Það eru þær hins vegar ekki heldur hafa þær gríðarleg og vaxandi völd yfir málefnum ríkjanna. Leitun er í dag að málaflokkum innan ríkja Evrópusambandsins sem ekki lúta yfirráðum þessara stofnana að meira eða minna leyti. Þessi miklu völd voru áður hluti af fullveldi ríkjanna en eru það ekki lengur. Því fámennari sem ríki Evrópusambandsins eru því verr standa þau að vígi í þessum efnum vegna þeirrar reglu sambandsins að vægi einstakra ríkja þess, og þar með allir möguleikar þeirra á að hafa áhrif innan þess, fara fyrst og síðast eftir því hversu fjölmenn þau eru. Því fámennari, því minni möguleikar á áhrifum, því minna frjáls og fullvalda.

Auðlindirnar

Ef Ísland gengi í Evrópusambandið færðust yfirráðin yfir íslensku fiskveiðilögsögunni til sambandsins. Í þessu fælist að stór hluti þeirra reglna, sem þá giltu um sjávarútveg hér á landi, kæmi frá stofnunum Evrópusambandsins í Brussel. Þar yrði t.a.m. ákveðið hvaða tegundir mætti veiða hér við land, hversu mikið, hvænær og með hvernig veiðarfærum og þar yrðu teknar allar veigameiri ákvaðanir um það hvaða umhverfi íslenskum sjávarútvegi yrði búið í framtíðinni. Þessar ákvaðarnir yrðu eftirleiðis ekki teknar af Íslendingum heldur fyrst og fremst af embættismönnum Evrópusambandsins sem og fulltrúum annarra ríkja þess. Þá einkum og sér í lagi þeim stærri.

Aðildarferlið

Inngönguferlið í Evrópusambandið tekur um tvö ár og að því koma tugir sérfræðinga, lögfræðingar, ríkisstjórn, utanríkisnefnd, álitsgjafar ofl. Þessu fylgja mikil ferðalög til Brussel og annara landa til að afla sjónarmiðum okkar fylgis. Utanríkisráðuneytið hefur áætlað kostnað vegna umsóknarinnar um inngöngu um einn milljarð króna en ljóst þykir að sú tala er engan vegin raunhæf. Líklegt er að þegar upp verður staðið verði kostnaður skattgreiðenda nokkrir milljarðar króna.

Heimssýn

Heimssýn, hreyfing sjálfstæðissinna í Evrópumálum, eru þverpólitísk samtök þeirra sem telja hagsmunum Íslendinga best borgið með því að halda áfram að vera sjálfstæð þjóð utan Evrópusambandsins.

Lífskjör

Hlutlausar rannsóknir sem gerðar hafa verið hér á landi hafa bent til þess að hugsanlegt sé að verðlag á matvörum gæti lækkað um 10-15% við inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru sem getur vart talist mikil lækkun. Ástæðan er m.a. sú að nú þegar eru flestar innfluttar vörur frá ríkjum sambandsins án tolla vegna EES-samningsins sem Ísland er aðili að. Hvort innganga í Evrópusambandið hins vegar raunverulega skilaði einhverju í þessum efnum kæmi aðeins í ljós eftir að inn í sambandið væri komið enda ljóst að ekkert yrði minnst á verðlagsmál í hugsanlegum samningi um inngöngu Íslands í það. Þess má annars geta að víðast hvar í þeim ríkjum Evrópusambandsins sem tekið hafa upp evru sem gjaldmiðil hefur verðlag hækkað en ekki lækkað. Í samræmi við það er evran t.a.m. uppnefnd “teuro” í Þýskalandi og Austurríki en þýska orðið “teuer” þýðir eitthvað sem er dýrt. Að lokum má geta þess að landbúnaðarvörur eru bara 5% af útgjöldum heimila og jafnvel 20% lækkun myndi því aðeins skila 1% lækkun útgjalda.

Evrópusambandið er ekki fríverslunarsvæði eins og t.a.m. Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) sem Ísland er aðili að. Evrópusambandið er m.a. tollabandalag sem er allt annars eðlis (þess utan vantar lítið upp á að sambandið verði að einu ríki). Tollabandalög leyfa vissulega frjálsa verslun innan sinna vébanda en viðhafa síðan háa tollmúra gagnvart viðskiptum við ríki utan þeirra. Innan fríverslunarsvæða er frjáls verslun og aðildarríki þeirra eru ekki svipt rétti sínum til þess að gera sjálfstæða viðskiptasamninga við ríki utan þeirra.

Lýðræðið

Myntbandalagið