Spurningar og svör

Hver yrðu áhrif Íslendinga innan ESB?

Áhrif Íslands innan ESB yrðu svo gott sem engin. Sú meginregla gildir innan sambandsins að vægi einstakra aðildarríkja, og þar með allir möguleikar þeirra til þess að hafa áhrif innan þess, fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Ljóst er að þetta fyrirkomulag myndi seint henta hagsmunum Íslendinga enda flest aðildarríki ESB milljónaþjóðir og í sumum tilfellum tugmilljónaþjóðir á sama tíma og Íslendingar eru aðeins rúmlega 380 þúsund.

Er ESB ekki samstarf frjálsra og fullvalda ríkja?

Ef ríki ESB væru í raun frjáls og fullvalda er ljóst að stofnanir sambandsins, sem flestar eru sjálfstæðar gagnvart ríkjunum, væru því sem næst valdalausar. Það eru þær hins vegar ekki heldur hafa þær gríðarleg og vaxandi völd yfir málefnum ríkjanna. Leitun er í dag að málaflokkum innan ríkja ESB sem ekki lúta yfirráðum þessara stofnana að meira eða minna leyti. Þessi miklu völd voru áður hluti af fullveldi ríkjanna en eru það ekki lengur. Því fámennari sem ríki ESB eru því verr standa þau að vígi í þessum efnum vegna þeirrar reglu sambandsins að vægi einstakra ríkja þess, og þar með allir möguleikar þeirra á að hafa áhrif innan þess, fara fyrst og síðast eftir því hversu fjölmenn þau eru. Því fámennari, því minni möguleikar á áhrifum, því minna frjáls og fullvalda.

Héldu Íslendingar yfirráðum yfir fiskveiðum við Ísland ef gengið yrði í ESB?

Ef Ísland gengi í ESB færðust yfirráðin yfir íslensku fiskveiðilögsögunni til sambandsins. Í þessu fælist að stór hluti þeirra reglna, sem þá giltu um sjávarútveg hér á landi, kæmi frá stofnunum ESB í Brussel. Þar yrði t.a.m. ákveðið hvaða tegundir mætti veiða hér við land, hversu mikið, hvænær og með hvernig veiðarfærum og þar yrðu teknar allar veigameiri ákvaðanir um það hvaða umhverfi íslenskum sjávarútvegi yrði búið í framtíðinni. Þessar ákvaðarnir yrðu eftirleiðis ekki teknar af Íslendingum heldur fyrst og fremst af embættismönnum ESB sem og fulltrúum annarra ríkja þess. Þá einkum og sér í lagi þeim stærri.

Hvers vegna ekki taka upp evru?

Í sjálfstæðu ríki er gengisskráning eigin myntar ásamt ákvörðun vaxta og skatta helstu ráðin til að berjast gegn neikvæðum afleiðingum hagsveiflna sem hafa þá áráttu að keyra hagkerfi þjóðanna út af sporinu, ýmist með háskalegri ofþenslu eða alvarlegum samdrætti og atvinnuleysi.
Ríki sem búa við samsvarandi efnahagskerfi geta tekið upp sameiginlega mynt með góðum árangri. Efnahagskerfið á Íslandi er hins vegar verulega ólíkt efnahagslífi aðildarríkja ESB. Hagsveiflur hér eru oft brattari en annars staðar og úr takti við hagsveiflur í ESB. Hér er það t.d. útflutningsverð á sjávarafurðum sem mjög ræður ferð hagsveiflunnar en það á ekki við ESB. 
Það yrði Íslendingum afar óhagstætt og skaðlegt hagkerfinu ef gengi gjaldmiðilsins tæki ekki lengur mið af íslenskum aðstæðum heldur kringumstæðum í löndum þar sem ástand mála er allt annað.
Danir, Svíar og Pólverjar eru í ESB en hafa ekki viljað taka upp evru. Fyrir því eru eflaust góðar ástæður.

Senda á: