Sigurður Már Jónsson blaðamaður skrifar:
Það er ekki endilega svo að Íslendinga vanti deiluefni um þessar mundir en ljóst er að framundan er áköf umræða um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu. Sagan hefur sýnt okkur að það er erfitt umræðuefni sem mun kljúfa þjóðirnar í tvær fylkingar. Hvað nákvæmlega rekur á eftir því að hefja slíkt ferli núna er erfitt að sjá. Helst að maður stoppi við persónulegan metnað núverandi utanríkisráðherra.
Síðast þegar sótt var um aðild að Evrópusambandinu var þjóðin í sárum eftir bankahrunið og það varð því að niðurstöðu að sækja um þó að annar stjórnarflokkurinn væri því andsnúinn. Mesta andstaðan við umsóknina kom því frá stjórnarliðunum sjálfum, eins öfugsnúið og það er. Nú er ljóst að þriðja hjólið undir ríkisstjórnarvagninn vantar í þessum áformum því það er margyfirlýst stefna Flokks fólksins að vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Það gerir þátttöku þeirra að stjórnarsáttmálanum enn vandræðalegri og ómögulegt er að sjá fyrir sér að Flokkur fólksins styðji aðildarviðræður verði ráðist í þær.
Pólitískur ómöguleiki
Að endingu þraut ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur örendi en áður var umsóknarferlið komið í strand enda gat það varla talist trúverðugt á nokkurn hátt. Ríkisstjórnin sem tók við árið 2013 hafði engan áhuga á að halda ferlinu áfram enda var slíkt „pólitískur ómöguleiki.“ Árið 2015 reyndi ríkisstjórnin að taka af öll tvímæli um að Íslendingar væru hættir við að sækja um. Flestir hugsandi menn meðtóku skilaboðin. Nú 10 árum síðar er reynt að halda því fram að umsóknarferlið lifi með einhvers konar orðhengilshætti og útúrsnúningum. Það er fráleit nálgun en sýnir hvað ESB-sinnar hér heima og fulltrúar Evrópusambandsins eru tilbúnir að ganga langt í blekkingarleik sínum.
Getur einhver haldið því fram að tíminn hafi staðið kyrr í öll þessi ár? Að nú 12 árum eftir að umsóknarvinnu var hætt síðast sé hægt að hefja leikinn enn á ný og ganga inn í biðröð aðildarríka eins og ekkert hafi í skorist? Skiptir engu þær breytingar sem hafa orðið á Evrópusambandinu síðan, meðal annars vegna útgöngu Breta, einnar af okkar helstu viðskiptaþjóðum og hugsanlega var sjávarútvegur landanna hvað tengdastur. Ef við hefðum verið hluti af ESB þegar Bretar gengu út hefði ferlið orðið enn óþægilegra en ESB gerði allt til að hindra að útganga Breta gengi árekstralaust fyrir sig. Tilgangurinn var að tryggja að aðrar þjóðir með sterkar útgönguhreyfingar færu ekki af stað. Það virðist hafa gengið.
Ísland og vanþróuð ríki A-Evrópu
Samkvæmt nýjustu upplýsingum eru umsóknarríki (e. candidate countries) að Evrópusambandinu eftirfarandi fimm ríki:
Albanía
Norður-Makedónía
Svartfjallaland
Serbía
Tyrkland
Auk þess eru tvö ríki skilgreind sem hugsanleg umsóknarríki (e. potential candidate countries), en þau hafa enn ekki formlega stöðu umsóknarríkja, og það eru Bosnía og Hersegóvína og Kósovó. Ísland er ekki lengur talið umsóknarríki (e. candidate country) eftir bréfið frá 2015.
Það er erfitt að sjá að Ísland eigi nokkuð sameiginlegt með þessum umsóknarríkjum enda Evrópusambandinu umhugað að ná í Ísland. Bæði vegna þeirra auðlinda sem landið hefur yfir að ráða en ekki síður vegna landfræðilegrar stöðu landsins. Þá hefur oft verið talað um að Ísland og Noregur séu svo samþætt hagkerfi að ef annað fer inn verði hitt að fylgja á eftir. Skyldu stjórnendur ESB vera að horfa til þess?
