Fjallað um óheilindi ESB í leiðara Morgunblaðsins

Í leiðara Morgunblaðsins þann 24. júlí 2025 segir m.a. þetta.

„Allt þar til von der Leyen upplýsti óvænt á blaðamannafundi að umsókn Íslands um aðild að ESB væri í fullu gildi hafði verið talið, og má heita óumdeilt, að umsóknin væri alls ekki í gildi enda hefði umsóknarferlið siglt í strand í tíð vinstristjórnar Samfylkingar og Vinstri-grænna, árin 2009 til 2013, og lokið endanlega í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem við tók eftir þau hörmungarár.

Þetta þótti fyllilega ljóst af stækkunarskýrslum Evrópusambandsins, þar sem rakið er í nokkrum smáatriðum hvaða lönd eru hluti af stækkunarferli (e. enlargement process) sambandsins og á hvaða stigi hvert þeirra er í flóknu aðlögunarferli sem búið hefur verið til fyrir þau ríki sem sótt hafa um aðild.

Í nýjustu stækkunarskýrslunni eru tíu ríki nefnd, líka ríki sem allir vita að eru ekki á leið inn í sambandið, svo sem Tyrkland og Georgía, og þar sem umsóknarferlið hefur beinlínis verið stöðvað. Þessi ríki eru samt á stækkunarlistanum þar sem umsóknin hefur ekki verið dregin til baka. Þar er líka Kósóvó sem er enn á fyrsta stigi aðlögunarferlisins, sem sagt bara umsóknarríki (e. applicant) en ekki viðurkennt umsóknarríki (e. canditate), en munurinn á þessu tvennu varð skyndilega að helstu röksemdinni fyrir því að Ísland hefði bara alls ekki dregið umsókn sína til baka og þess vegna væri það rétt hjá von der Leyen og ríkisstjórn Íslands að umsóknin væri í fullu gildi. Ef þau rök stæðust hefði Ísland áfram verið á listanum yfir umsóknarríki í stækkunarskýrslum Evrópusambandsins.

En það eru ekki aðeins stækkunarskýrslur sambandsins sjálfs sem verið hafa staðfesting þess að umsóknin hafi verið dregin til baka, helstu sérfræðingar Íslands í Brussel hafa ítrekað staðfest það. Sendinefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu heldur úti fréttabréfi sem kallast Brussel-vaktin og þar hefur í það minnsta í tvígang á síðustu árum verið fjallað um stækkunarmál sambandsins og stöðu Íslands í því samhengi.

Í fyrra var fjallað um þessi mál og þar er minnst á skýrslu um stöðu viðræðna Íslands og ESB frá árinu 2013 og svo segir orðrétt að „umsókn Íslands var eins og kunnugt er dregin til baka í kjölfar alþingiskosninga síðar það ár“. Umsóknin var sem sagt „eins og kunnugt er“ dregin til baka. Þarna er enginn efi og ekkert álitamál á ferðinni, aðeins þekkt staðreynd.“

Leiðarinn veltir því næst upp mögulegum ávinningi ESB af því að láta sem umsókn Íslands sé enn í fullu gildi og að lokum segir:

„Aðilum sem eru sammála um að hefja aðlögunarviðræður á fölskum forsendum er alls ekki treystandi til að standa af heilindum að slíkum viðræðum. Það gefur augaleið og jafnvel hörðustu stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu geta ekki haldið öðru fram.“

Leiðari Morgunblaðsins í heild.

Senda á: