Hvað er í pakkanum?

Hreinn Loftsson hæstaréttarlögmaður skrifar:

Umræða um aðild Íslands að Evrópusambandinu (ESB) hefur blossað upp eftir að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur tók við völdum í lok árs 2024, en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lýst vilja til að endurmeta stöðu Íslands gagnvart ESB. Við slíkt mat verður að vanda til verka og rýna reynslu annarra ríkja, áhrif aðildar á mikilvæga hagsmuni þjóðarinnar og jafnframt rök þeirra sem styðja aðild. Þessi pistill er skrifaður í þeim tilgangi að varpa ljósi á bæði eðli og afleiðingar aðildar með hliðsjón af opinberum gögnum, alþjóðlegum skýrslum og áratugalangri þróun innan ESB.

1. ESB fengi vald yfir nýtingu og stjórnun fiskveiða við Ísland.

Ein mikilvægasta hlið málsins snýr að yfirráðum yfir auðlindum — einkum fiskveiðiauðlindinni og orkuauðlindum.

Samkvæmt stofnsáttmálum ESB fellur varðveisla sjávarlífríkisins undir sameiginlega fiskveiðistefnu sambandsins (Common Fisheries Policy, CFP), sem er hluti af málefnasviði sem á ensku er nefnt „exclusive competence“. Í því felst að ESB ákveður nýtingu og stjórnun fiskistofna innan lögsögu aðildarríkjanna. Reynslan af CFP hefur verið gagnrýnd af fræðimönnum og eftirlitsstofnunum fyrir að stuðla að ofveiði og brottkasti, m.a. samkvæmt skýrslum Court of Auditors (2019, 2023).

Svar við rökum fylgjenda aðildar að ESB: Þeir sem styðja aðild vísa til þess að Ísland gæti haft áhrif innan kerfisins. En þar sem Ísland fengi ekki neitunarvald og aðeins eitt atkvæði í ráðherraráðinu (þar sem stærri ríki ráða í reynd), er ólíklegt að Ísland gæti haft afgerandi áhrif á kvótastefnu sem snýr að mikilvægustu lífshagsmunum þjóðarinnar.

Áhrif á Ísland: Aðild myndi fela í sér varanlegt framsal á yfirráðum yfir fiskveiðiauðlind þjóðarinnar. Togarar t.d. frá Spáni og Portúgal fengju að öllum líkindum heimildir til veiða í íslenskri fiskveiðilögsögu sem myndi skapa hættu á rányrkju miðað við reynslu annarra þjóða. Þar með gæti grundvöllur núverandi kerfis – sem hvílir á sjálfbærni – verið brostinn.

2. Yfirstjórn orkumála myndi færast til Brussel.

Orkumál hafa verið sívaxandi þáttur í sameiginlegri stefnu ESB. Með samþykkt þriðja orkupakkans og tilurð stofnana á borð við ACER (Orkustofnun ESB), hefur áhrifavaldið í orkumálum færst frá aðildarríkjunum til framkvæmdastjórnar ESB og eftirlitsstofnana þess.

Samkvæmt skýrslu EFTA Surveillance Authority (ESA 2021) hefur ESA tekið ítrekað afstöðu með framkvæmdastjórn ESB í málum sem snúa að innleiðingu og samræmingu á innri orkumarkaði sambandsins. Sú afstaða hefur kallað fram deilur og efasemdir með vísan til sjónarmiða um fullveldi bæði í Noregi og á Íslandi.

Svar við rökum fylgjenda: Stuðningsmenn aðildar telja að markaðsaðgangur og hærra raforkuverð í Evrópu gæti skapað ný tækifæri. En reynslan sýnir að slíkt gengur ekki endilega eftir. Í Noregi hefur hækkandi orkuverð til neytenda og aukin krafa um raforkuútflutning verið bein afleiðing af því að orkumarkaðurinn hefur í auknum mæli mótast af sameiginlegu regluverki og samræmingarstefnu ESB, sem tekur ekki endilega mið af sérstöðu eða hagsmunum heimamarkaðar.

Áhrif á Ísland: Ísland myndi tapa sveigjanleika til að stýra eigin orkumálum í samræmi við þjóðarhag, t.d. varðandi verðlagningu, náttúruvernd eða forgang orku til innlendrar atvinnustarfsemi. Einnig myndi aukin aðkoma erlendra aðila að orkuverum og flutningskerfum auka líkur á því að hagsmunir Íslands í orkumálum yrðu fyrir áhrifum af utanaðkomandi sjónarmiðum og hagsmunum.

3. ESB hefur þróast frá efnahagsbandalagi til ríkjasambands.

Í upphafi var Evrópusambandið hugsað sem friðarverkefni og efnahagsbandalag (Rómarsáttmálinn 1957). Með Maastricht-sáttmálanum (1992) og Lissabon-sáttmálanum (2007) voru á hinn bóginn stigin stór skref í átt til yfirþjóðlegs ríkjasambands með sameiginlega löggjöf, stefnumótun og dómstóla.

Íslendingar hafa hingað til tekið þátt í hluta þessarar þróunar með aðild að EES, en við höfum haldið eftir mikilvægum málaflokkum, t.d. eigin tollastefnu, landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnu, utanríkis- og öryggismálum og fullum yfirráðum náttúruauðlinda.

Svar við rökum fylgjenda: Þeir sem vilja aðild líta oft á EES sem „aðild án áhrifa“. En EES hefur gefið Íslandi aðgang að innri markaði og fjölmörgum samstarfsverkefnum án þess að því fylgi framsal á fullveldi þjóðarinnar. Þá hafa EFTA-ríkin beitt sér fyrir áhrifum í undirbúningsferlum og með sameiginlegum nefndum (EFTA–EU Joint Committee).

Áhrif á Ísland: Með fullri aðild yrði Ísland hluti af ríkjasambandi með yfirgripsmiklu og yfirþjóðlegu valdi, án þess að tryggt sé að sérhagsmunum landsins verði sinnt svo nokkru nemi.

4. Þrengt verður að lýðræðislegum ákvörðunarrétti þjóðarinnar.

Stofnanaveldi ESB hefur á undanförnum árum verið gagnrýnt fyrir lýðræðishalla. Evrópuþingið hefur takmarkað löggjafarvald, en framkvæmdastjórnin – sem er ekki kosin í almennum kosningum – hefur frumkvæðisrétt í löggjöf. Þá eru ákvarðanir í ráðherraráðinu oft teknar án aðkomu þjóðþinga.

Skýrslur t.d. frá Transparency International (2023) og The European Council on Foreign Relations (2024) benda á að lýðræðislegt gegnsæi innan ESB hafi minnkað, einkum eftir Covid-19 og innleiðingu „NextGenerationEU“.

Svar við rökum fylgjenda: Stuðningsmenn aðildar telja að Ísland muni „fá rödd“ í stofnunum ESB. En staðreyndin er sú að Ísland fengi innan við 1% af þingsætum (6 af 720) og einn fulltrúa í 27 manna framkvæmdastjórn. Áhrif á stefnumótun væru þannig takmörkuð og óvíst hvort þau skiptu nokkru máli þegar á reynir.

Áhrif á Ísland: Þrengt yrði að sjálfstæði og fullveldi sem hvíla nú á ákvæðum stjórnarskrárinnar. Lög sem kæmu frá ESB hefðu forgang yfir íslensk lög. Áhrif þjóðarinnar á eigin löggjöf væru skert til langframa.

5. Efnahagsleg áhrif og samkeppnishæfni.

Þótt Ísland myndi hljóta aðgang að öllum stoðum innri markaðar ESB með aðild, þá ber að líta til þess að margar lykilstofnanir og greiningaraðilar hafa bent á vaxandi efnahagsvandamál innan sambandsins.

Mario Draghi skilaði í júní 2024 skýrslu (European Competitiveness Report) þar sem hann varar við kerfisbundinni minnkun á samkeppnishæfni ESB. Ástæður eru m.a. aukin opinber íhlutun, takmörkuð nýsköpun og skortur á fjárfestingum í nýjum iðnaði. Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) og Alþjóðabankinn (IMF) hafa einnig bent á að hagvöxtur innan ESB hefur dregist saman miðað við Bandaríkin og Asíu.

Svar við rökum fylgjenda: Fylgjendur aðildar halda oft fram að aðild muni tryggja stöðugri efnahag. En efnahagsvandamál ESB-ríkja, sérstaklega á evrusvæðinu, sýna að aðild tryggir ekki sjálfkrafa vöxt og gæti jafnvel takmarkað sveigjanleika Íslands til að bregðast við ytri áföllum.

Áhrif á Ísland: Ísland gæti glatað sjálfstæðu handbæru stjórntæki í peningamálum og þurft að laga sig að stefnu sem miðar frekar að hagsmunum stærri ríkja. Þetta gæti komið sér illa fyrir lítið opið hagkerfi á borð við það íslenska.

6. Utanríkisstefna, NATO og öryggismál.

Með aðild að ESB yrði Ísland aðili að sameiginlegri utanríkis- og öryggisstefnu sambandsins. Sú stefna hefur á síðari árum orðið samræmdari en þó oft brotakennd í framkvæmd (sbr. viðbrögð við Úkraínustríðinu og ástandinu á Gaza).

NATO hefur verið megintrygging Íslands í öryggis- og varnarmálum um langt skeið. Sérstaða Íslands sem herlaus þjóð innan NATO með tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin hefur tryggt okkur stöðugleika og frið. Þetta fyrirkomulag hefur veitt Íslendingum mikilvægt skjól til að byggja upp öflugt velferðarkerfi sem stendur framar mörgum ESB-ríkjum, m.a. á sviði heilbrigðis, menntunar og jafnréttismála (UN Human Development Index, 2023).

Svar við rökum fylgjenda: Þeir sem styðja aðild telja að sameiginleg öryggisstefna ESB styrki stöðu Íslands. En ESB hefur enga hernaðarlega burði. Ekkert aðildarríki sambandsins hefur sambærilegan varnarsamning á við þann sem Ísland hefur við Bandaríkin.

Áhrif á Ísland: Aðild gæti grafið undan varnartengslum við Bandaríkin og dregið úr trúverðugleika varnarskuldbindinga NATO gagnvart Íslandi. Það myndi mögulega veikja þá einstöku stöðu sem Ísland nýtur og hefur notið með farsælu samstarfi við Bandaríkin til margra áratuga.

Niðurlag.

Rökin fyrir aðild að Evrópusambandinu hvíla á framtíðarsýn um aukin áhrif og samstöðu í Evrópu. En þegar þau eru skoðuð í ljósi þróunar ESB, reynslu annarra smáríkja og alþjóðlegra gagna, verður ljóst að aðild hefur í för með sér yfirgripsmikið framsal á fullveldi, takmörkun á sjálfsákvörðunarrétti og óvissu um lykilstoðir íslensks samfélags.

Ákvörðun um aðild snýst ekki um það hvort ESB sé að öllu leyti slæmt – heldur hvort aðild þjónar íslenskum þjóðarhagsmunum betur en staða utan þess. Með hliðsjón af ofangreindum atriðum reynist svarið að svo stöddu vera neikvætt. Ísland hefur hagsmuni af áframhaldandi samstarfi við Evrópu — en innan ramma sem verndar sjálfstæði og tryggir að ákvörðunarvald liggi áfram hjá íslensku þjóðinni.

Birtist á Facebook síðu höfundar 1. ágúst 2025

Senda á: