Í Morgunblaðsgrein 17. febrúar færir Stefán Már rök fyrir því að frumvarp ríkisstjórnarinnar um bókun 35 feli í sér veigamiklar breytingar á réttarreglum Íslands, með óljósum afleiðingum fyrir samspil EES-reglna og íslensks réttar.
Frumvarp utanríkisráðherra leggur til breytingu á lögum nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið með nýrri 4. gr. sem veitir EES-reglum sem hafa verið lögleiddar af Alþingi forgang fram yfir önnur lög, nema Alþingi ákveði annað.
EES-samningurinn var upphaflega innleiddur með sérstökum lögskýringarákvæðum í 3. gr. laganna, sem dómstólar hafa beitt, en Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur þau ekki duga til að fullnægja skuldbindingum samkvæmt bókun 35 við EES-samninginn. Í bókuninni skuldbinda EFTA-ríkin sig til að tryggja forgang EES-reglna í lagakerfum sínum ef þörf krefur, en þar er einnig áréttað að löggjafarvald er ekki framselt til stofnana EES, ólíkt því sem gildir innan Evrópusambandsins.
Stefán Már bendir á að forgangsregla frumvarpsins gæti skapað réttaróvissu, þar sem Alþingi myndi ekki hafa tækifæri til að taka afstöðu til árekstra milli íslenskra laga og EES-reglna.
Að lokum varpar Sefán fram áleitinni spurningu „hvort það fái staðist að Alþingi geti, að óbreyttri stjórnarskrá, sett almenn lög sem geyma ákvæði um að þau gangi framar öllum öðrum almennum lögum sem ekki eru nánar tilgreind, jafnt eldri lögum sem yngri.„