Frétt á vef Útvarp Sögu:
Ísland er smám saman að hverfa frá friðarstefnu sinni og dragast inn í aukna hernaðarhyggju Evrópu og það er slóð sem við ættum alls ekki að feta. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Arnars Þórs Jónssonar lögmanns og formanns Lýðræðisflokksins en hann var gestur Péturs Gunnlaugssonar í Síðdegisútvarpinu. Hann bendir á að umræðan um hernaðaruppbyggingu hafi aukist mjög hér á landi og að stefna stjórnvalda bendi til meiri þátttöku í öryggismálum NATO og Evrópusambandsins. Þessi þróun sé andstæð þeirri stefnu sem Íslendingar hafa fylgt frá stofnun lýðveldisins og geti haft ófyrirséðar afleiðingar fyrir þjóðina.
Hlýða má á viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.
Þjóðvarðlið getur skapað fjarlægð milli stjórnvalda og almennings
Í máli Arnars kom fram að þær hugmyndir sem settar hafi verið fram um stofnun íslensks þjóðvarðliðs eða öflugri viðbúnaðarsveita séu sérstaklega varasamar. Slíkar sveitir starfi oft með öðrum hætti en lögreglan sem sé rótgróin í samfélaginu og hafi náin tengsl við borgarana. Þjóðvarðlið gæti hins vegar fjarlægst almenning og skapað óæskilega spennu milli stjórnvalda og þjóðarinnar.
Ísland í skugga Evrópuhernaðar
Arnar gagnrýnir þá þróun að Evrópusambandið stefni í auknum mæli að sameiginlegri öryggisstefnu og herafla. Hann bendir á að ef Ísland færi sig nær slíkri stefnu gæti það leitt til skuldbindinga um þátttöku í hernaðaraðgerðum sem það hefði annars ekki tekið þátt í. Stjórnvöld hafi ekki gert þjóðinni grein fyrir afleiðingum þess að tengjast varnarsamstarfi Evrópusambandsins og því þurfi að ræða málið opinskátt áður en lengra sé haldið.
Alþjóðasamskipti Íslands veikjast
Arnar telur að afstaða stjórnvalda í alþjóðlegum deilum hafi torveldað samskipti við stórveldi á borð við Rússland og Kína. Hann bendir á að lokun sendiráðsins í Moskvu hafi haft neikvæð áhrif á möguleika Íslands til að eiga viðskipti við Rússa í framtíðinni. Sama gildi um aðgerðir gegn Kína sem geti sett Ísland í óhagstæða stöðu þegar kemur að alþjóðlegum viðskiptum. Hann telur að Ísland hafi ekki efni á að fórna möguleikum sínum í alþjóðaviðskiptum með því að fylgja óbreyttri stefnu stjórnvalda.
Hlutleysið gæti verið farsælasta leiðin
Í máli Arnars kom einnig fram að Ísland hefði hag af því að standa utan hernaðarbandalaga og leggja meiri áherslu á hlutleysisstefnu og viðskiptaleg sjónarmið. Hann bendir á að Ísland hafi aldrei haft hernaðarlegt vægi í alþjóðapólitík og gæti þess í stað einbeitt sér að því að viðhalda góðum samskiptum við öll stærstu ríki heims. Með því að halda sig utan hernaðarátaka gæti Ísland staðið sem rödd friðar og skapað sér sérstöðu á alþjóðavettvangi.
Engin skýr stefna í varnarmálum
Arnar gagnrýnir að engin skýr framtíðarsýn hafi verið lögð fram í varnarmálum Íslands. Hann bendir á að stjórnvöld hafi hingað til ekki útskýrt fyrir þjóðinni hvaða stefnu þau hyggjast taka í þessum málum. Ef Ísland heldur áfram að dragast inn í hernaðarbandalög án þess að þjóðin hafi fengið að taka afstöðu til þess muni það hafa langvarandi áhrif á fullveldi og stefnu landsins í alþjóðasamskiptum.