Skýrsla Mario Draghi, „Framtíð samkeppnishæfni ESB“, sem gefin var út í september 2024, lýsir áskorunum sem ESB stendur frammi fyrir og ógna efnahagslegri stöðu þess og áhrifum á heimsvísu. Skýrslan, sem er unnin af fyrrverandi seðlabankastjóra ESB, gefur dökka mynd af erfiðleikum ESB. Hér er stutt samantekt á helstu vandamálunum sem bent er á:
Lítill hagvöxtur
Framleiðni hefur aukist mun hægar í ESB en í Bandaríkjunum og Kína. Síðan 2019 hefur framleiðsla á hvern evrópskan starfsmann aðeins aukist um 0,5% árlega, samanborið við 1,6% í Bandaríkjunum. Landsframleiðsla ESB á mann hefur dregist enn lengra aftur úr Bandaríkjunum, var 17% minni árið 2002 en er nú orðin 30% minni. Lítill hagvöxtur er ógn við lífskjör og félagslegan stuðning í ESB.
Lítil nýsköpun
ESB hefur dregist afturúr á sviðum hátækni- og stafrænnar tækni. Í skýrslunni kemur fram að ESB „missti að mestu af stafrænu byltingunni“ og sé fast í „miðlungs-tækni gildru“, þar sem fyrirtæki einblína á eldri atvinnugreinar eins og bílaiðnaðinn fremur en háþróuð svið eins og gervigreind. Skortur á áhættufjármagni og reglubyrði ESB veldur því að nýsköpunarfyrirtækin færa sig frá ESB, oft til Bandaríkjanna.
Hátt orkuverð
Iðnaður ESB þarf að greiða 2-3 sinnum hærra verð fyrir rafoku og 4-5 sinnum hærra verð fyrir jarðgas en bandarískir keppinautar. Háir skattar og lítill fjárfesting í endurnýjanlegri orku og innviðum gera vandann verri og grafa undan samkeppnishæfni iðnaðarins.
Sundurleitur markaður
Sameiginlegur markaður ESB er enn ófullkominn. Aðildarríki hafa enn ýmsar sérreglur sem torvelda viðskipti yfir landamæri. Draghi áætlar að með þessu tapi ESB 10% af mögulegri landsframleiðslu.
Lítil fjárfesting
Í skýrslunni er lögð áhersla á langvarandi skort á fjárfestingu á öllum sviðum og áætlað að þörf sé á 750-800 milljörðum evra til viðbótar árlega (um 5% af landsframleiðslu ESB) til að bæta upp vöntun í nýsköpun, grænni orku, varnarmálum og innviðum. Núverandi leiðir til fjármögnunar, þar á meðal fjárlög ESB sem nema aðeins 1% af landsframleiðslu, eru ófullnægjandi og verkefni eins og sameiginlegur markaður fyrir fjármagn hafi ekki raungerst.
Lítil sjálfbærni
ESB treystir á utanaðkomandi ríki fyrir mikilvæg aðföng – t.d. Kína fyrir málma og Bandaríkin fyrir varnarbúnað – sem gerir ESB of berskjaldað fyrir breytingum í heimspólitíkinni. Um 40% af innflutningi koma frá fáum birgjum sem erfitt er að skipta út, margir ekki strategískt samstíga ESB, sem ógnar stöðugleika aðfangakeðjunnar.
Skriffinnska og reglufargan
Flóknar reglur ESB og ósamræmi milli aðildarríkja hindrar nýsköpun og vöxt fyrirtækja.
Geopólitískar og skipulagslegar áskoranir
Skýrslan lýsir þessum vandamálum sem „tilvistarkreppu“ og bendir á að tími ódýrrar rússneskrar orku, opins kínversks markaðar og öryggis frá Bandaríkjunum sé lokið.
Framtíðin óviss
Í stuttu máli heldur skýrsla Draghi því fram að ESB standi frammi fyrir skýrum valkosti: að ráðast í gríðarlega fjárfestingu og skipulagsumbætur til að efla samkeppnishæfni, eða sætta sig við hægfara hnignun miðað við alþjóðleg stórveldi. Skýrslan er almennt lofuð fyrir skýrleika sinn, þótt framkvæmd lausnanna – eins og sameiginlegar skuldir og dýpri samþætting – sé enn pólitískt umdeild meðal aðildarríkja.